Hoppa yfir valmynd
15. apríl 1997 Matvælaráðuneytið

Ársfundur Evrópubankans 1997

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 9/1997



Ársfundur Evrópubankans ("European Bank for Reconstruction and Development") var haldinn í London 14.-15. apríl 1997. Fundinn sátu af Íslands hálfu Finnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra og Halldór J. Kristjánsson, ráðuneytisstjóri í iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti.

Síðastliðið ár var þriðja heila starfsár bankans undir stjórn Frakkans Jacques de Larosiere sem tók við sem aðalbankastjóri sumarið 1993. Undir forystu de Larosiere hefur starf bankans orðið markvissara en áður. Aukin áhersla er lögð á að bankinn fjármagni verkefni í öllum ríkjum Mið- og Austur-Evrópu, að hann sinni í auknum mæli smáum og meðalstórum fyrirtækjum og starfi í auknum mæli í gegnum staðarbanka í hverju aðildarríki. Þá er aukin áhersla lögð á áhættufjármögnun með hlutafjárþátttöku bankans í einstökum verkefnum.

Á ársfundinum kom fram mikil ánægja með starfsemi Evrópubankans og áhrif hans á endurreisnarstarfið í Austur-Evrópu. Sérstaða Evrópubankans felst einkum í því að geta fjármagnað bæði verkefni á vegum opinberra aðila og einkaaðila, ýmist með lánum eða hlutafé.

Í ræðu sinni á ársfundinum lagði Finnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem situr í bankaráði Evrópubankans fyrir Ísland, áherslu á mikilvægi þess að sinna smáum og meðalstórum fyrirtækjum, á hlutafjárframlög og mikilvægi þess fyrir bankann að nota staðarbanka til að miðla fjármagni. Þetta hefur verið afstaða Íslands frá stofnun bankans og það er ánægjulegt að stefna bankans endurspeglar nú þessi sjónarmið. Finnur lagði áherslu á staðbundna hlutafjársjóði sem bankinn hefur ásamt öðrum sett á laggirnar. Í ræðu sinni lagði Finnur einnig áherslu á aukin verkefni á sviði orkusparnaðar og mikilvægi umhverfissjónarmiða. Í því sambandi bæri að leggja áherslu á uppbyggingu og endurbætur hitaveitna og fjármögnun sérverkefna er stuðla að orkusparnaði í iðnaði. Lagði ráðherra áherslu á samstarfsverkefni smærri fyrirtækja með sértækum aðgerðum til að koma slíkum verkefnum á.

Í tengslum við ársfundinn átti íslenska sendinefndin fundi með sendinefndum nokkurra ríkja í Austur Evrópu til að ræða þátttöku íslenskra fyrirtækja í samstarfsverkefnum. Af Íslands hálfu var sérþekking íslenskra fyrirtækja á sviði orkumála, hugbúnaðariðnaðar, fiskiðnaðar og matvælaframleiðslu kynnt fyrir viðkomandi sendinefndum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum