Hoppa yfir valmynd
29. janúar 1997 Matvælaráðuneytið

Nefnd um stuðning við atvinnurekstur kvenna

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 4/1997


Iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur skipað nefnd sem falið er að kanna hvort og þá með hvaða hætti, stjórnvöld geta stutt við atvinnurekstur kvenna sérstaklega. Nefndin tekur þegar til starfa og er ætlað að skila ráðherra tillögum sínum í haust.

Í samkeppnislöndum Íslands er víða lögð mikil áhersla á að auka veg kvenna í fyrirtækjarekstri og stjórnun. Sérstaða "kvennafyrirtækja" er almennt viðurkennd og algengt er að skipulagðar séu sérstakar stuðningsaðgerðir sem taka mið af þörfum kvenna.

Til að leggja mat á þörf á slíkri þjónustu hér á landi hefur iðnaðar- og viðskiptaráðherra falið ofangreindri nefnd eftirfarandi hlutverk:

  • Að kynna sér með hvaða hætti staðið er að stuðningi stjórnvalda við atvinnurekstur kvenna í ýmsum nágrannalöndum okkar. Sérstaklega er bent á Svíþjóð, Kanada og verkefni á vegum ESB.
  • Að leggja mat á þörf sértækra aðgerða á þessu sviði hér á landi, m.a. með könnun á viðhorfi kvenna í fyrirtækjarekstri til þeirra.
  • Að skila ráðherra áliti um hver þörfin fyrir slíkar aðgerðir er hér á landi og sé hún til staðar að skila þá tillögum um með hvaða hætti standa skuli að slíkum aðgerðum.

Nefndin skal hafa samvinnu við atvinnuráðgjafa á landsbyggðinni, atvinnu- og iðnþróunarfélög, Aflvaka Reykjavíkur og aðra þá aðila sem að stuðningi við atvinnulífið koma. Hún skal skila ráðherra áliti sínu og tillögum fyrir 1. október 1997.

Í nefndina hafa verið skipaðar:
Jónína Bjartmars, lögfræðingur, formaður.
Ragnheiður Kristjánsdóttir, deildarsérfræðingur, iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, ritari.
Jónína Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri.
Herdís Sæmundardóttir, kennari, fh. félagsmálaráðuneytis.
Elísabet Benediktsdóttir, fh. Byggðastofnunar.
Vigdís Hauksdóttir, verslunarmaður.
Brynhildur Bergþórsdóttir, fh. Iðntæknistofnunar.

Reykjavík, 29. janúar 1997

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum