Hoppa yfir valmynd
28. janúar 1997 Matvælaráðuneytið

Veiðiheimildir í úthafskarfa á Reykjaneshrygg.28.01.97

FRÉTTATILKYNNING

Úthlutun veiðiheimilda í úthafskarfa á Reykjaneshrygg



Ráðuneytið hefur gefið út reglugerð um úthlutun veiðiheimilda í úthafskarfa á Reykjaneshrygg. Hér á eftir verður gerð grein fyrir helstu ákvæðum reglugerðar þessarar:

1. Á árinu 1997 er þeim íslensku skipum, sem hljóta leyfi Fiskistofu til veiða á úthafskarfa með flotvörpu, heimilt að veiða samtals 45.000 lestir.

2. Hverju íslensku fiskiskipi skal reiknuð aflahlutdeild í úthafskarfa, sem miðast við afla skipsins á þremur bestu aflaárum þess á tímabilinu 1991-1996. Þó skal 5% heildarkvótans úthlutað til þeirra skipa, sem úthafskarfaveiðar stunduðu á árunum 1989, 1990 og 1991, miðað við heildarafla þeirra þessi ár.

3. Úthlutun aflahlutdeildar er bundin því skilyrði, að útgerð viðkomandi skips afsali sér aflahlutdeild í tegundum innan lögsögu Íslands, sem nemi 8% af þeirri aflahlutdeild, sem viðkomandi skipi er úthlutað í úthafskarfa samkvæmt reglugerð þessari. Miðað er við, að verðmætastuðull fyrir úthafskarfa sé hinn sami og fyrir karfa, sem veiðist innan lögsögunnar. Verði skerðingu aflahlutdeildar ekki viðkomið þar sem skipið hefur ekki aflahlutdeild í tegundum innan lögsögunnar, skerðist aflahlutdeild þess í úthafskarfa um 8%.

4. Veiðar á úthafskarfa eru háðar sérstöku leyfi Fiskistofu og aðeins eiga kost á leyfum þau skip, sem aflahlutdeild fá samkvæmt ofangreindri reglu og ennfremur þau skip, sem fengið hafa flutt til sín aflamark eða aflahlutdeild í úthafskarfa.

5. Við útreikning afla skal miðað við að nýting sé 55% miðað við hausskorinn karfa en 30% miðað við flök með roði og beinum.

6. Fiskistofa mun fyrir 8. febrúar senda útgerðum þeirra skipa, sem aflahlutdeild fá samkvæmt ofangreindri reglu tilkynningu um bráðabirgðaúthlutun og forsendum hennar. Útgerðir skulu síðan fyrir 18. febrúar tilkynna til Fiskistofu hvort þær nýta sér rétt til aflahlutdeildar og í framhaldi af því mun Fiskistofa úthluta endanlegri aflahlutdeild, aflamarki fyrir 1997 og veiðileyfi.

Reglugerð þessi er gefin út á grundvelli laga nr. 151, frá 17. desember 1996, um veiðar utan lögsögu Íslands.
Sjávarútvegsráðuneytið,
28. janúar 1997

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum