Hoppa yfir valmynd
18. janúar 1997 Matvælaráðuneytið

Hugsanleg aukning stóriðju á Grundartanga

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 3/1997



Á fundi með forsvarsmönnum sveitarfélaganna sunnan Skarðsheiðar, sveitungum þeirra og fleira fólki, sem haldinn var við Arnarhvál í dag, bauð iðnaðarráðherra þessum aðilum að ef yrði af byggingu álvers á Grundartanga yrði stofnaður starfshópur stjórnvalda og viðkomandi sveitarfélaga er fengi það hlutverk að fylgjast með mengunarmælingum af völdum stóriðju á svæðinu og koma upplýsingum um niðurstöður þeirra á framfæri við íbúa á svæðisins.

Gert er ráð fyrir að í hópnum sitji fyrir hönd heimamanna; fulltrúar Heilbrigðiseftirlits Akranesssvæðis og Kjósarsvæðis, oddvitar Innri-Akranesshrepss, Skilmannahrepps, Leirár- og Melasveitar, Hvalfjarðarstrandarhrepps og Kjósarhrepps, auk bæjarstjóra, formanns bæjarráðs eða forseta bæjarstjórnar Akraness. Fyrir hönd stjórnvalda sætu fulltrúar umhverfis-, landbúnaðar- og iðnaðarráðuneytis og Hollustuverndar. Auk þess ættu sæti í hópnum fulltrúar fyrirtækjanna á svæðinu. Þá myndu iðnaðar- og umhverfisráðherra skipa formann hópsins sameiginlega.

Í yfirlýsingu ráðherra um starf hópsins segir: Verði af byggingu álvers á Grundartanga verður hlutverk hópsins að upplýsa íbúa svæðisins um niðurstöður mengunarmælinga og annarra umhverfisathugana, sem framkvæmdar verða á iðnaðarsvæðinu á Grundartanga og næsta nágrenni þess á grundvelli þeirra krafna, sem lög og reglur gera ráð fyrir. Jafnframt geri hópurinn tillögur til stjórnvalda um hertar aðgerðir gegn mengun og/eða annarri umhverfisröskun, ef ástæða er talin til þess á grundvelli niðurstaðna umhverfisathugana. Hópurinn skal gangast reglulega fyrir upplýsingafundum og standa að dreifingu upplýsingarits um stöðu mála meðal íbúa svæðisins. Markmið þessa starfs er að íbúar séu ávallt sem best upplýstir um eftirlit með mengun á svæðinu.

Iðnaðarráðherra hefur og lýst því yfir að ef komi fram vilji til þess hjá forsvarsmönnum sveitarfélaganna sunnan Skarðsheiðar, þá sé hann reiðubúinn að skipuleggja ferð þeirra í erlend álver, er starfa samkvæmt ítrustu mengunarvarnar-kröfum, líkt og álverið Grundartanga mun gera, verði af byggingu þess. Slík ferð yrði þó ávallt á kostnað þátttakenda.

Reykjavík
18. janúar 1997

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum