Hoppa yfir valmynd
1. janúar 1997 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Niðurstöður könnunar jafnréttisfræðslu í skólum - janúar 1997

Niðurstöður könnunar á jafnréttisfræðslu
í skólum


Til skólastjóra grunn- og framhaldsskóla


Í nóvember 1995 sendi menntamálaráðuneytið spurningalista til grunn- og framhaldsskóla um skipulag og framkvæmd jafnréttisfræðslu í skólum. Spurningalistarnir voru sendir til 213 grunnskóla og 46 framhaldsskóla. Ítrekun var send í febrúar 1996. Alls bárust svör frá 201skólum (76,4% svörun), 35 framhaldsskólum (76% svörun) og 164 grunnskólum (77% svörun).

Tilgangur með könnuninni var að afla upplýsinga um það hvernig staðið væri að jafnréttisfræðslu í skólum. Samkvæmt Lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 28/1991 ber skólum að veita fræðslu um jafnréttismál á öllum skólastigum. Þar segir m.a. í 10. gr. um menntun:

"Í skólum og öðrum mennta- og uppeldisstofnunum skal kynjum ekki mismunað. Skylt er að gæta þessa í námi og kennslu, starfsháttum og daglegri umgengni við nemendur. Á öllum skólastigum skal veita fræðslu um jafnréttismál, m.a. með því að leggja áherslu á að búa bæði kynin jafnt undir virka þátttöku í samfélaginu, fjölskyldulífi og atvinnulífi. Gæta skal þess sérstaklega að kennslutæki og kennslubækur séu þannig úr garði gerð að kynjum sé ekki mismunað.

Í náms- og starfsfræðslu og við ráðgjöf í skólum skal leitast við að kynna bæði piltum og stúlkum störf sem hingað til hefur verið litið á sem hefðbundin karla- eða kvennastörf. Menntamálaráðuneytið ber ábyrgð á framkvæmd þessarar greinar í samráði við Jafnréttisráð".
Í Lögum um grunnskóla frá 1995, V1. kafla, 29. gr. um námskrár og kennsluskipan, er kveðið á um að í starfi skólans skuli leggja áherslu á að búa bæði kynin jafnt undir virka þátttöku í samfélaginu, fjölskyldulífi og atvinnulífi. Í greinargerð með frumvarpi til laga um framhaldsskóla segir í athugasemdum við 2. grein: Í starfi skólans skal leggja áherslu á jafna stöðu kynjanna hvað varðar undirbúning undir virka þátttöku í samfélaginu, fjölskyldulífi og atvinnulífi.

Hér á eftir verður gerð grein fyrir helstu niðurstöðum þessarar könnunar.

1. spurning, A:
Er þess gætt að kynjum sé ekki mismunað í
a) vali á viðfangsefnum,
b) kennslu,
c) starfsháttum
og d) daglegri umgengni við nemendur.

Nær allir, 98% a) - 99,5% d), svarenda töldu að fremur vel eða mjög vel væri gætt að þessum þáttum. Ekki var marktækur munur milli svara í grunnskólum og framhaldsskólum.


1. spurning, B:
Er veitt jafnréttisfræðsla til að búa bæði kynin jafnt undir virka þátttöku í
a) samfélaginu,
b) fjölskyldulífi
og c) atvinnulífi.

Samkvæmt svörum við a) lið telja 68% svarenda mikla eða talsverða fræðslu veitta en 32% litla eða enga fræðslu, við b) lið telja 69% svarenda mikla eða talsverða fræðslu veitta en 31% litla eða enga fræðslu og við c) lið 64% mikla eða talsverða en 36% litla eða enga fræðslu veitta. Marktækt fleiri svarendur í grunnskólum töldu fræðslu veitta en svarendur í framhaldsskólum.


1. spurning, C:
Eru hefðbundin kvenna- og karlastörf kynnt nemendum af báðum kynjum?

72% svarenda töldu störfin mjög vel eða fremur vel kynnt en 28% ekki eða fremur illa kynnt. Ekki var marktækur munur milli svara í grunn- og framhaldsskólum.


1. spurning, D: Hvernig telur þú að náms- og kennslugögn uppfylli það skilyrði að vera án
a) staðalmynda um kynin,
b) kynjafordóma,
c) misvægis í umfjöllun um kynin.

74,5% svarenda töldu námsefnið uppfylla skilyrðið í a) lið fremur vel eða mjög vel en 25,5% fremur illa eða mjög illa, í b) lið 89,5% fremur vel eða mjög vel en10,5% fremur illa eða mjög illa og í c) lið 77% fremur vel eða mjög vel en 23% fremur illa eða illa. Svarendur í framhaldsskólum telja að náms-og kennslugögn uppfylli skilyrði í a) lið betur en svarendur í grunnskólum en að öðru leyti er ekki marktækur munur.


2. spurning: Hvernig er jafnréttisfræðsla skipulögð í þínum skóla?
a) með gerð jafnréttisáætlunar,
b) liður í skólanámskrá/námsvísi,
c) ekki skipulögð sárstaklega.

Í svörum kom fram að aðeins um 1% grunnskóla gerir sérstaka jafnréttisáætlun en enginn framhaldsskóli. 85 % grunnskóla en 89,5% framhaldsskóla skipuleggja ekki jafnréttisfræðslu sérstaklega. Aðeins 16% grunnskóla og 18% framhaldsskóla segjast fjalla um jafnréttisfræðslu í skólanámskrá eða námsvísi.


3. spurning:
Hvernig er jafnréttisfræðsla framkvæmd í þínum skóla?
a) tekin fyrir í ákveðnum námsgreinum/námsáföngum,
b) tekin fyrir á sérstökum námskeiðum,
c) tekin fyrir í ákveðnum verkefnum/þemum,
d) kemur skipulega inn í allt skólastarf,
e) engin sérstök fræðsla.

Í flestum grunn- og framhaldsskólum, þar sem jafnréttisfræðsla fer fram, er hún tekin fyrir í ákveðnum námsgreinum/áföngum, (43% grunnskóla sem svara og 47% framhaldsskóla), þá í ákveðnum þemum (29% grunnskóla og 32% framhaldsskóla) en fæstir taka hana fyrir á sérstökum námskeiðum (7% grunnskóla og 18% framhaldsskóla). Aðeins 28% grunnskóla og 29% framhaldsskóla segja að jafnréttisfræðsla komi inn í allt skólastarf. Um 36% svarenda segja að engin serstök jafnréttisfræðsla fari fram.


4. spurning:
Hverjir sinna jafnréttisfræðslunni í þínum skóla?
a) einn sérstakur aðili,
b) ákveðinn hópur kennara,
c) allir kennarar, hver í sínum bekk/deild/námsgrein,
d) skólastjórnendur.

81% svarenda í grunnskólum segja að allir kennarar (þ.e. bekkjarkennari) sinni jafnréttisfræðslunni en 28% í framhaldsskólum. Í framhaldsskólum er algengara að ákveðinn hópur kennara sinni jafnréttisfræðslunni, 51% svarenda, en 11% í grunnskólum.


5. spurning:
Er eitthvað sem hindrar framkvæmd jafnréttisfræðslu?
a) nei, alls ekkert,
b) já, ónóg fræðsla til kennara,
c) já, tímaskortur,
d) já, skortur á fræðslu/kennsluefni.

Fram kom að 66,9% svarenda í grunnskólum telja að eitthvað hindri framkvæmd en 55,% framhaldsskóla. Í grunnskólum nefna 52,1% tímaskort, 36% skort á fræðsluefni og 23,9% nefna ónóga fræðslu til kennara. Í framhaldsskólum nefna 33,3% tímaskort, 44,4% skort á fræðsluefni og 30,6% ónóga fræðslu til kennara.


Ath. að við spurningar 2-5 mátti merkja við fleiri en einn reit.


13. janúar 1997

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum