Hoppa yfir valmynd
12. október 1996 Matvælaráðuneytið

Skýrsla orkunefndar iðnaðarráðherra

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 21/1996



Síðastliðinn apríl skipaði iðnaðarráðherra nefnd til að undirbúa endurskoðun löggjafar um vinnslu, flutning og dreifingu orku. Meginmarkmiðið með endurskoðuninni var að leggja grunn að hagkvæmri frambúðarskipan í orkumálum þjóðarinnar, með það að leiðarljósi að auka skilvirkni í starfsemi á orkusviðinu, auka samkeppni, stuðla að jöfnun orkuverðs, tryggja gæði þjónustu og auka sjálfstæði orkufyrirtækja og ábyrgð stjórnenda. Í nefndinni sátu fulltrúar sem voru tilnefndir af þingflokkunum, Sambandi ísl. sveitarfélaga, Akureyrarbæ, Reykjavíkurborg, Alþýðusambandi Íslands, Vinnuveitendasambandi Íslands, Samorku, Orkustofnun, Landsvirkjun og Rafmagnsveitum ríkisins. Þórður Friðjónsson, forstjóri Þjóðhagsstofnunar var formaður nefndarinnar.

Nefndin hefur lokið störfum og voru niðurstöður hennar lagðar fyrir ráðherra um miðja þessa viku. Í þeim bent á helstu atriði sem nefndin telur að liggja eigi til grundvallar endurkoðun orkulaganna. Í bréfi sínu til ráðherra lýsa nefndarmenn sig sammála um þær meginlínur í framtíðarskipan orkumála sem lýst er í skýrslunni þótt áherslumunur sé á milli þeirra um útfærsluatriði.

Til að skapa forsendur til samkeppni í viðskiptum með raforku telur nefndin heppilegast að endurskipuleggja raforkubúskapinn á núverandi grunni með markaðssjónarmið að leiðarljósi í vinnslu og sölu raforku. Í því sambandi er m.a. gert ráð fyrir:

  • Aðskilnaði vinnslu, flutnings, dreifingar og sölu rafmagns.
  • Að stofnað verði sjálfstætt fyrirtæki, Landsnet, um meginflutningskerfi raforku. Fyrirtækinu verði falin ábyrgð á rekstri kerfisins, áætlunargerð, álagsstýringu og gæðum raforkunnar.
  • Að raforkuvinnsla verði gefin frjáls í áföngum. Til þess að stuðla að virkri samkeppni er að mati nefndarinnar mikilvægt að raforka verði flutt um Landsnetið samkvæmt nánari reglum sem miða að markaðsviðskiptum.
  • Að kaup og sala á raforku verði gefin frjáls í áföngum á grundvelli almennra skilyrða og einkaleyfi rafveitna til sölu á rafmagni á tilteknum orkuveitusvæðum verði afnumið.


Samfara þessum breytingum á skipan raforkumála er óhjákvæmilegt að starfsumhverfi raforkufyrirtækjanna breytist verulega. Í því sambandi má nefna:
  • Að virk samkeppni í raforkuvinnslu leiðir til þess að þeir sem binda fé í raforkuverunum muni gera kröfur um arð.
  • Að jafna verður starfsskilyrði fyrirtækjanna.
  • Að eignarhald á orkuverunum mun líklega breytast smám saman, enda hníga sterk rök að því að einkafjármagn komi inn í raforkugeirann.
  • Að skynsamlegt kunni að vera að fjár til nýrra stórverkefna á orkusviðinu verði í framtíðinni aflað með verkefnafjármögnum eða með einkafjármagni.


Nefndin gerir ekki tillögur um miklar breytingar á skipulagi hitaveitumála. Nefndin telur þó rétt að endurskoða gildandi ákvæði um hitaveitur og tilhögun einkaleyfa þeirra sem og afhendingarskyldu. Þá telur nefndin að setja þurfi ákvæði í lög um gæði vatnsins eða gufunnar sem veiturnar selja notendum til þess að jafnræðis sé gætt. Ennfremur að kveða þurfi á um að hitaveitur sem jafnframt sinna annarri starfsemi beri að greina þá starfsemi frá rekstri hitaveitunnar í bókhaldi.

Iðnaðarráðherra er að fara yfir tillögur og ábendingar nefndarinnar og undirbúa stefnumótun um hvernig hrinda má tillögum og ábendingum nefndarinnar í framkvæmd. Ljóst er að hér er um verulega breytingu á skipan orkumála að ræða, sem ekki verður innleidd nema á mjög löngum tíma. Endanleg stefnumörkun mun einnig taka tillit til niðurstöðu viðræðunefndar eignaraðila að Landsvirkjun, sem skipuð var í mars síðastliðnum til þess að ræða eignarhald, rekstrarform og hlutverk fyrirtækisins. Gert er ráð fyrir að niðurstaða nefndarinnar liggi fyrir síðar í október.

Hjálagt er bréf nefndarinnar til iðnaðar- og viðskiptaráðherra sem fylgdi skýrslu hennar, ásamt fyrsta kafla skýrslunnar þar sem gerð er grein fyrir tillögum nefndarinnar um meginlínur í framtíðarskipan orkumála. Skýrsla nefndarinnar er í prentun og mun væntanlega verða tilbúin til dreifingar fyrir lok næstu viku.

Reykjavík, 12. október 1996

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum