Hoppa yfir valmynd
8. október 1996 Matvælaráðuneytið

Framtíðarsýn ríkisstjórnar Íslands um upplýsingasamfélagið - Boð á blaðamannafund

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 20/1996

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra Finnur Ingólfsson boðar til blaðamannafundar fimmtudaginn 10. október kl. 12:00 í Borgartúni 6. Tilefni fundarins er kynning á framtíðarsýn ríkisstjórnar Íslands um upplýsingasamfélagið, en ríkisstjórnin stefnir að því að Ísland verði í fararbroddi þjóða heims í notkun upplýsingatækni í þágu bætts mannlífs og aukinnar hagsældar.

Ísland siglir hraðbyri inn í öld upplýsingasamfélagsins. Þess gætir á flestum sviðum þjóðfélagsins og hundruðum milljóna króna er varið á hverju ári til þróunar upplýsingakerfa af ýmsu tagi. Það er nauðsynlegt að tryggja að því fé sem varið er til upplýsingamála sé varið á sem hagkvæmastan hátt og í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar var því heitið að sett yrðu fram markmið um hvernig nota skyldi upplýsingatækni til að bæta stjórnsýslu og örva atvinnulíf.

Nú hafa verið gefin út rit þar sem framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar í þessum efnum er lýst. Þar er lögð áhersla á hvernig nota megi upplýsingatæknina á sem flestum sviðum til hagsgbóta fyrir landsmenn alla, án þess að ganga það langt að menningu þjóðarinnar og vernd viðkvæmra persónuupplýsinga, verði stefnt í hættu.

Ætlunin er að upplýsingar verði gerðar fólki aðgengilegar án tillits til efnahags eða búsetu og því verði tryggðir möguleikar til að menntast alla ævi og læra ný störf eftir þörfum. Þá er stefnt að því að nota upplýsingatæknina í baráttunni við atvinnuleysi og til að virkja fatlaða til þátttöku í samfélaginu. Þróa á bókasöfn í að verða alhliða upplýsingamiðstöðvar sem tryggi öllum viðskiptavinum sínum greiðan aðgang að upplýsingum á tölvutæku formi, meðal annars með tengslum við innlendar og alþjóðlegar fræðslumiðstöðvar og upplýsingaveitur.

Í skýrslunni er að finna nákvæma stefnumörkun um notkun upplýsinga í atvinnulífinu, í menntakerfinu, heilbrigðiskerfinu, fjarskiptum, fjölmiðlum, samgöngu- og ferðamálum og á fleiri sviðum auk þess sem lagalegum og siðferðilegum spurningum er velt upp, en ljóst er að breyta þarf lögum til þess að stefna ríkisstjórnarinnar í þessum efnum nái fram að ganga. Ríkisstjórnin lítur á stefnumörkunina sem þróunarverkefni. Vegna örra tæknibreytinga þurfi hún að vera í stöðugri endurskoðun.

NOKKUR ÁHERSLUATRIÐI

Forsætisráðuneytið fer með yfirstjórn þeirra þátta sem lúta að heildarsýn yfir framkvæmd stefnunnar.

Ríkisstjórnin mun koma á sérstökum fjárlagaliðum innan ráðuneyta sem ætlaðir eru til verkefna á sviði upplýsingatækni. Við úthlutun fjárins hafa þau verkefni forgang sem - falla að stefnu stjórnvalda í upplýsingamálum. - stuðla að aukinni hagræðingu í ríkisrekstri, bættri þjónustu við almenning eða fyrirtæki. - nýtast fleiri en einni stofnun, fyrirtæki eða heilli starfsgrein. - eru boðin út.

Hið opinbera gegnir stóru hlutverki í upplýsingasamfélaginu með mótun leikreglna fyrir atvinnulífið. Það þarf að innleiða upplýsingatækni í eigin rekstri og samskiptum við fyrirtæki. Jafnframt getur ríkið eflt samkeppnishæfni innlendra fyrirtækja með því að skapa meiri samkeppni í upplýsingaþjónustu og fjarskiptum.

Upplýsingaiðnaður verði öflug atvinnugrein er geti stuðlað að auknum útflutningi. Árið 1991 voru tekjur af útflutningi hugbúnaðar innan við 50 milljónir króna, árið 1995 voru þær á bilinu 800 milljónir til einn milljarður króna.

Stafræn lykilkort. Kannað verði lögmæti þess að taka þau upp. Slík kort eru sérstök tegund korta sem geyma mun meira af upplýsingum en rúmast á hefðbundnum kortum með segulrönd. Þau virka sem persónulegur lykill viðkomandi einstaklings til að senda og taka á móti hvers kyns gögnum þannig að tryggt sé að þau séu ólæsileg fyrir annan en réttan viðtakanda. Þau geta leyst af hólmi hefðbundin vegabréf og ökuskírteini.

Settir verði á laggirnar kjarnaskólar sem verði í fararbroddi og þannig fyrirmyndir annarra skóla á sviði upplýsingatækni. Þeir taki til starfa skólaárið 1997 til 1998, hafi náið samráð sín á milli og vinni í nánu samráði við kennaramenntastofnanir.

Lykilstofnanir í menningarlífinu seti upp tölvuaðstöðu fyrir almenning þar sem hægt verði að fá aðgang að upplýsingum og öðru því efni sem til er í tölvutæku formi.

Kjarnasöfn. Mikilvægt er að í ákveðnum bókasöfnum verði byggð upp sérþekking og reynsla í nýtingu upplýsingatækni í þágu almennings. Í því skyni verði sett á laggirnar kjarnasöfn í samvinnu ríkis og sveitarfélaga. Þau verði fyrirmynd annarra bókasafna hvað varðar beitingu upplýsingatækni í þjónustu við almenning.

Byggð verði upp samræmd upplýsingakerfi fyrir stofnanir heilbrigðisþjónustunnar þannig að þær geti unnið saman sem ein heild og skipst á upplýsingum.

Endurskoða þarf fjarskiptalög og hefur samgönguráðuneytið þegar hafið það verk og stefnt er að því að leggja fram nýtt frumvarp um fjarskiptalög nú á haustþingi.

Ritin Framtíðarsýn ríkisstjórnar Íslands um upplýsingasamfélagið og Íslenska upplýsingasamfélagið, álitsgerð starfshópa verða afhent á fundinum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum