Hoppa yfir valmynd
6. september 1996 Matvælaráðuneytið

Staða Íslands í alþjóðlegri samkeppni

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 16/1996



Ráðstefna haldin að Hótel Loftleiðum fimmtudaginn 26. september 1996, kl. 9:00-16:00

Þann 26. september nk. verður haldin ráðstefna hér í Reykjavík um stöðu Íslands í alþjóðlegri samkeppni. Að ráðstefnunni standa iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið, fjármálaráðuneytið og nefnd um lítil og meðalstór fyrirtæki og samkeppnishæfni atvinnulífs.

Á ráðstefnunni verður fjallað um mótun samkeppnisstefnu hjá nokkrum ríkjum innan OECD, s.s. einföldun laga og reglugerða, einkavæðingu, lítil og meðalstór fyrirtæki, stuðningskerfi atvinnulífsins, áhættufjármagn, upplýsingatækni, rannsóknir og þróun, mentun og þjálfun o.fl.

Á ráðstefnunni er ætlunin að draga lærdóm af reynslu þessara þjóða og á hvern hátt megi heimfæra það sem best hefur tekist erlendis til íslenskra aðstæðna. Auk þess verður fjallað um innlendar aðgerðir á þessu sviði og er ráðstefnan hluti af starfi stjórnvalda til að bæta samkeppnisstöðu Íslands.

Margir góðir gestir koma til ráðstefnunnar og má þar m.a. nefna framkvæmdastjóra iðnaðarsviðs OECD, Hans Peter Gassmann, og sérfræðinga frá Bretlandi, Kanada, Noregi og Danmörku. Þeir munu fjalla um stefnumótun stjórnvalda til aukinnar samkeppnishæfni í þessum ríkjum, en þeir eru helstu sérfræðingar á þessu sviði í viðkomandi löndum. Frá Bretlandi kemur t.d. R.C. Dobbie, sem er helsti ráðgjafi Majors forsætisráðherra, en hann veitir forstöðu sérstakri deild á þessu sviði í breska forsætisráðuneytinu.

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Finnur Ingólfsson, og fjármálaráðherra, Friðrik Sophusson, munu ávarpa ráðstefnuna, auk Davíðs Schevings Thorsteinssonar, formanns nefndar um lítil og meðalstór fyrirtæki og samkeppnishæfni atvinnulífs, og annarra innlendra fyrirlesara.

Íslenskt atvinnulíf er á æ fleiri sviðum að verða hluti af hinum alþjóðlega markaði og keppinautar þess því í vaxandi mæli fyrirtæki út um allan heim, sem þau verða að standast samkeppni við eigi að vera unnt að stuðla að aukinni verðmætasköpun, atvinnu og bættum lífskjörum. Samkeppnisstefna einstakra ríkja byggir í auknum mæli á almennri og víðtækri stefnumótun í stað sérgreindrar atvinnustefnu byggðri á hagsmunum einstakra atvinnugreina. Mikilvægi stefnumótunar stjórnvalda til aukinnar samkeppnishæfni atvinnulífs og verðmætasköpunar með almennum aðgerðum hefur því aukist með vaxandi samkeppni þjóða, ekki síður er mikilvægi stefnumótunar innan fyrirtækjanna sjálfra.

Hér er á ferðinni einstakt tækifæri til að kynna sér það helsta sem næstu nágranna- og samkeppnislönd eru að gera til að efla atvinnulíf sitt og hvaða aðgerðir og stefnumið stjórnvöld hér á landi hafa á þessu sviði. Allir sem láta sig varða samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs í framtíðinni ættu því að taka fimmtudaginn 26. september frá í dagbókum sínum.

Skráning á ráðstefnuna fer fram hjá afgreiðslu iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins í síma 560-9420. Undirbúningur og framkvæmd ráðstefnunnar er í höndum iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins en þar hefur verið unnið að undirbúningi um nokkurt skeið og veitir Baldur Pétursson, deildarstjóri, frekari upplýsingar.

Reykjavík, 6. september 1996

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum