Hoppa yfir valmynd
4. júní 1996 Matvælaráðuneytið

Skýrsla starfshóps um endurbætur á innlendum skuldabréfamarkaði

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 13/1996




Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið minnir á áður boðaðan fund um innlendan verðbréfamarkað þriðjudaginn 4. júní kl. 14:00 á Hótel Sögu. Þar mun meðal annars verða fjallað um skýrslu starfshóps, sem Finnur Ingólfsson, viðskiptaráðherra, skipaði síðastliðið haust, til að kanna skilvirkni á skuldabréfamarkaði. Starfshópinn skipuðu: Eiríkur Guðnason, seðlabankastjóri, formaður, Benedikt Árnason, hagfræðingur, tilnefndur af viðskiptaráðuneyti, Finnur Sveinbjörnsson, framkvæmdastjóri, tilnefndur af Sambandi íslenskra viðskiptabanka og Sambandi íslenskra sparisjóða, Guðmundur Hauksson, forstjóri, tilnefndur af Samtökum íslenskra verðbréfafyrirtækja, Þorgeir Eyjólfsson, forstjóri, tilnefndur af Sambandi almennra lífeyrissjóða og Landssambandi lífeyrissjóða, Einar Sigurjónsson, deildarstjóri, tilnefndur af fjármálaráðuneyti og Yngvi Örn Kristinsson, framkvæmdastjóri, tilnefndur af Seðlabanka Íslands, ritari.

Starfshópurinn kemst að þeirri niðurstöðu að þótt margt megi bæta varðandi starfsemi fjármagnsmarkaðar hér á landi, þá ráðist vextir á verðbréfamarkaði í meginatriðum af framboði og eftirspurn. Ástandið á fjármagnsmarkaðnum hér á landi, allt frá því að vextir voru gefnir frjálsir árið 1986, hefur hins vegar einkennst af mikilli eftirspurn eftir lánsfé, ekki síst frá heimilum, sem valdið hefur spennu á lánamarkaði. Þegar dregið hefur úr eftirspurn hafa vextir lækkað, eins og árin 1988 og 1989 annars vegar og árið 1993 hins vegar.

Af þessari niðurstöðu má draga þá ályktun að aukinn innlendur sparnaður myndi stuðla að lækkun vaxta. Sparnaður er lítill hér á landi borið saman við önnur lönd og er það brýnt viðfangsefni, að dómi starfshópsins, að leita leiða til að auka hann. Jafnframt myndi minni eftirspurn eftir lánsfé, ekki síst frá heimilum, leiða til lækkunar vaxta. Síðastliðið ár virtist sem dragi úr eftirspurn heimila eftir lánsfé, sérstaklega vegna húsnæðismála, og jafnframt er stefnt að því að lánsfjárþörf opinberra aðila fari minnkandi. Hvort tveggja stuðlar að lækkun vaxta.

Í skýrslu sinni bendir starfshópurinn á fjölmörg atriði sem betur mættu fara á íslenskum fjármagnsmarkaði. Hópurinn leggur mikið upp úr að viðskipti með skuldabréf verði sem sýnilegust. Í því skyni er lagt til að stuðlað verði að því að útboð fari í meira mæli fram sem opin útboð og viðskipti fari að mestu í gegnum Verðbréfaþing Íslands. Einnig bendir hópurinn á nauðsyn þess að bæta fyrirkomulag viðskiptavaktar á Verðbréfaþingi Íslands í því skyni að gera skuldabréf auðseljanlegri.

Starfshópurinn hvetur til þess að settur verði rammi um fjárfestingar lífeyrissjóða. Jafnframt leggur hópurinn til að samkeppnisskilyrði á lánamarkaði verði samræmd, meðal annars með því að breyta ríkisbönkum og fjárfestingarlánasjóðum í hlutafélög. Einnig er lagt til að könnuð verði áhrif þess og möguleiki á að afnema skylduaðild að tilteknum lífeyrissjóðum, með tilliti til þess hvaða áhrif það hefði á samkeppni á fjármagnsmarkaðnum.

Með annarra tillagna hópsins er að komið verði á formlegu áhættumati á verðbréfum, sala spariskírteina í áskrift verði tekin til endurskoðunar, bankar og sparisjóðir tengi vexti sína betur peningamarkaðsvöxtum og fyrirkomulag stimpilgjalda verði endurskoðað.

Reykjavík, 4. júni 1996.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum